Sumarskóli TBR 2017

Sumarskóli TBR hefur verið starfræktur í yfir 20 ár. Þetta er alhliða íþróttaskóli og eru fjölmargar íþróttagreinar á dagskrá. Badmintoníþróttin skipar þó veglegan sess, enda er hún aðalíþrótt TBR. Við starfrækjum íþróttaskóla fyrir 6–13 ára börn í sumar. Skipt er í hópa eftir aldri.

Á námskeiðinu er stefnt að því að kynna nemendum helstu grunnatriði badmintoníþróttarinnar, s.s. grip, uppgjöf og háhögg. Kennslan fer bæði fram á leikjaformi og í formi tækniæfinga og skiptist erfiðleikastig þeirra eftir aldri og getustigi þátttakenda. Einnig kynnast nemendur helstu leikreglum.

Við leggjum mikla áherslu á að námskeiðið sé fjölbreytt, spennandi og skemmtilegt og við nýtum okkar frábæra staðsetningu í Laugardalnum, auk þess að fara í stuttar ferðir með strætó út fyrir dalinn. Á hverju námskeiði er m.a. farið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, í sund í Laugardalnum, ferð í Elliðaárdalinn, Nauthólsvík heimsótt o.s.frv.

Boðið verður upp á bæði heils- og hálfsdagsvistun, frá kl. 9–13 og 9–16. Möguleiki er á gæslu frá kl. 8–9 og frá kl. 16–17. Þá er boðið upp á léttan hádegisverð fyrir þau börn sem eru í heilsdagsvistun.

Þjálfarar eru m.a. Árni Þór Hallgrímsson badmintonþjálfari, Jóhann Kjartansson badmintonþjálfari, o.fl. Öll börn í Sumarskólanum fá jafna viðurkenningu fyrir þátttöku og verðlaunapening eins og stefna ÍSÍ í þjálfun barna og unglinga segir til um.

Námskeið

Námskeið 1: 12. júní–23. júní ** 10 daga námskeið

Námskeið 2: 26. júní–7. júlí ** 10 daga námskeið

Námskeið 3: 8. ágúst–18. ágúst ** 9 daga námskeið

Verð

Verð er 12.000 kr. fyrir 9 daga námskeið kl. 9–13 og 21.600 kr. fyrir námskeið kl. 9–16.

Verð er 13.300 kr. fyrir 10 daga námskeið kl. 9–13 og 24.000 kr. fyrir námskeið kl. 9–16.

Skráning

Skráning hefst 10. maí í síma 581 2266

Nánari upplýsingar

581-2266

www.tbr.is

tbr@tbr.is